Upplýsingatafla

Borgir

311 Borgarnes

sími 435 1505
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Skotveiði er stranglega bönnuð

Landnámsjörð. Fyrir þá sem hafa áhuga á sögunni þá er hún hér við hvert fótmál. Borgir eru landnámsjörð. Jörðin er í landnámi Skalla-Gríms. Hann sendi Sigmund leysingja að Norðurá til að fanga lax. Líklega hefur hann átt að greiða fyrir lausn sína með þeim hætti. Setti Sigmundur bústað sinn niður þar sem kallað var Sigmundarstaðir og heitir þar nú að Haugum, segir í Egilssögu. Síðar færði hann sig að Munúðarnesi (Munaðarnesi) þar sem hægara var um vik að fanga laxinn.

Borgir BorgarfirðiHaugar- Borgir. Segja sumir að Hauga-nafnið sé komið vegna þess að menn hafi verið heygðir hér, um það skal ekkert dæmt. Enginn veit hins vegar hvað nafnið Borgir er gamalt. Sumir segja það eldra en Hauga-nafnið, aðrir yngra. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir svo: “ Gömul munnmæli eru að þessi jörð hafi áður í gamalli tíð kölluð verið Borg eða Borger. Enginn veit hjer rök til.” Svo mörg voru þau orð. En þegar komið er heim á bæinn eða í nágrenni hans, má sjá glögg merki þessarar nafngiftar.

Egilssaga. Ekki eru örnefnin mörg er tengja okkur við Egilssögu, þó er enn til Sigmundarnes, nes það er skagar út í Norðurá. Þar eru tvær rústir sem ekki er vitað um aldur á. Líka er gamalt vað á Norðurá, fyrir neðan brúna, rétt við Sigmundarnesið. Nú heitir það Hólmavað. Þarna var hólmi, sem í dag er landfastur, og Hólmavaðslág upp frá honum. Er spurning hvort þetta sé Eyjarvað sem nefnt er víða í fornsögum er gerast á þessu svæði, en það var vað á Norðuá fyrir ofan Stafholt. Annað vað er fyrir neðan Stafholt, við svonefndan Stafholtshólma. Ekki er gott að vita hvort vaðið er átt við, þótt mann renni í grun að eyjavaðið sé núverandi Hólmavað, enda sagt fyrir ofan Stafholt.