ThursahausÁlfar og tröll. Ýmsar aðrar sögur eru til um örnefni hér. M.a. hafa fundist sagnir um huldufólksbyggð, hafðar eftir fólki er lifði fram yfir miðja síðustu öld. Talið er að huldufólk búi í borginni næst bænum og er Borgabrekkan álagablettur sem ekki má slá. Eins er sagt að huldufólk búi í Stekknum sem stendur fyrir ofan Sigmundarnesið.

Þjóðsögur eru einnig tengdar landinu. Þannig er að fyrir innan bæinn er klettur er heitir Þursahaus því hann er eins og stór haus að lögun og annar við sem heitir Söðull. Sagan segir að skessan í Skarðsheiðinni og tröllkarl að vestan hafi verið heitbundin og ætlað að hittast við Norðurá. Karlinn fer að heiman með söðul á bakinu er hann hugðist færa ástkonu sinni. Sem hann kemur arkandi milli borganna þá sér hann unnustu sína stitja við ána. En við hlið hennar situr annar karl. Verður hann svo hamslaus af bræði, rjóður af reiði, að hann bræðir undan sér jörðina og sekkur niður. En áður en hann hvarf allur kom sólin upp og varð hausinn að steini svo og pakkinn er hann bar á bakinu. Skessan og sessunauturinn flúðu af hólmi en þar sem þau sátu við Norðurá heita Hvammar og eru þeir rassför þeirra.

Kötturinn á Haugum.
Á Haugum í Stafholtstungum bar svo við, að köttur eignaðist kettlinga í útihúsi. Gömul kona, er þar var, gekk í húsið og færði kettingum mjólk og fisk. En er kisa fór að éta, hugaði konan að kettlingunum. Brá henni heldur í brún, er hún sá, að einn þeirra var með þrjú augu. Þriðja augað var við nefrótina og stóð á stilk.
Þessi kettlingur var og enn sjáandi. Störðu öll þrjú augun grimmdarlega á hana. Gamla konan varð flemtri slegin og hljóp til bæjar. þegar þetta gerðist, var Sigurður Jónsson bóndi á Haugum og Sigurður Þórðarson sýslumaður í Arnarholti. Skrifari hans var Sigurður skáld Sigurðsson. Bóndinn á Haugum brá nú skjótt við og fann Sigurð skáld að máli. Bað hann skáldið að koma hið snarasta með sér og ráða ófögnuð þennan af dögum. Nafni hans hét þar góðu um og fór með honum. En er þeir opnuðu útihúsið, stökk læðan út með vanskapaða kettlinginn í kjaftinum. Eltu þeir hana og náðu eftir langan og harðan eltingarleik. Kötturinn beit og klóraði og hvæsti ógurlega. Er þeir náðu kettlingnum, hljóp kisa burt og sást aldrei framar. Þeir félagar létu kettlinginn í poka. Sigurður skáld tók bát og reri út á Haugahyl nálægt því, sem Norðurárbrú er nú. Hann batt stóran stein við pokann og sökkti í hylinn. Nokkru síðar komst sá kvittur á kreik, að eftir sjö ár mundi kettlingur þessi vera orðinn að ógurlegu skrímsli, ganga á land og eyða byggðinni. Er sagt, að nokkrir menn hafi borið ugg í brjósti vegna þess. En sem betur fer rættist það ekki. Þótti og öðrum svo sem sjálfsagt, að skáldið frá Arnarholti hefði gengið rækilega frá óskapnaði þessum. (Norðurá-fegurst áa. Björn J. Blöndal)