Þegar einhver er í sumarfíri þá er það yfirleitt vegna þess að hann vinnur launaða vinnu aðra daga, 

vikur og mánuði ársins. Hins vegar fara þeir sem eru eigin húsbændur einnig í sumarfrí eða taka sér frí yfir sumarið, ef viðkomandi getur komið því við. Oft er þá farið eitthvað því annars er hætt við að sá hinn sami hafi ekki mikinn frið. Því er málvitundin á orðinu sumarfrí tengd því að fara í ferðalag, nema hjá launamönnum. Þeir fara í sumarfrí en geta alveg eins verið heim í fríinu, enda oft spurt: Fórstu eitthvert í sumarfríinu? En þeir sem vinna heima hjá sér eins og bændur, fara ekki í sumarfrí, eða við köllum það ekki svo. Þeir fara frekar í ferðalag enda eru bændur oft afar uppteknir á sumrin við heyskap þótt það hafi sannarlega breyst við tilkomu öflugra heyvinnuvéla. Mér finnst afar gaman að heyra af því að bændur í mínu umhverfi eru farnir að leyfa sér að fara í frí á sumrin, þ.e. fara í ferðalag, ekki bara á haustin þegar farið er að húma eða á vorin áður en sauðburður hefst. þetta segir mér að þessi stétt hefur í æ ríkari mæli tíma til að líta upp frá puðinu og koma sér af hlaðinu endrum og sinnum. En vonandi halda landmenn áfram að fara í frí, breyta til og gera eitthvað allt annað en grár hvers dagurinn býður upp á, hverri sál til uppfyllingar og yndisauka.

Með fríum kveðjum úr Borgarfirðinum

Birna