Ferðamannalandið Ísland!!! Við hjónakornin fórum í ferðalag á dögunum um okkar fagra land.

Það er nú ekki fréttnæmt í sjálfu sér, þótt við séum ekki duglegust allra að koma okkur í ferðalag. Hins vegar fórum við ekkert mikið um hringveginn í þetta sinn heldur var farið um aðra og smærri vegi, svokallaða safnvegi eða bara sveitavegi. Þar hrisstumst við langar stundir. Hlutir sem lagðir höfðu verið frá sér á sillur og hillur í bílnum, duttu niður. Úrgangsventlar farþega minntu óþægilega á sig þegar innra dót vildi hrisstast út og eðal vagn fjölskyldunnra rumdi og stundi yfir illri meðferð. Úff, fjölskyldan á Borgum var á ferðalagi á íslenskum sveitavegum. Og svo erum við hissa á slysum, útafakstri, veltum og vandræðum útlendinga sem aldrei hafa kynst öðru eins. Svo erum við hissa á því að traffík á suma af hinum venjulegu "ferðamannastöðum" sem að liggja malarvegir séu lítið sóttir. Og þetta er ferðamannalandið Ísland þar sem sjálfrennireiðar ferðalanga eru lagðar undir til að berja augum einhvern foss eða gamlan torfbæ. Einhverjar milljónir í húfi í þessu fjárhættuspili sem enginn veit hvernig fer. Eins og ég er mikil dreifbýlistútta í mér finnst mér með ólíkindum að árið 2007 séu enn vegir í byggð á mínu ægifagra landi þar sem varla er akandi um nema á 5 km/klst eða 105 km/klst og ekkert þar á milli. Nú skil ég vel eiganda Bjarkalunds í Reykhólahreppi sem sagði við mig í vor. Staðurinn gengur af því að malbikið nær hingað. Eigum við ekki að reyna að forgangsraða á þann hátt að allir landsmenn komist heim til sín á þannig vegum að þeir geti leyft sér að eiga eitthvað annað farartæki en postulana tvo, hjólbörur eða hest?

með ferðalagskveðjum úr Borgarfirðinum

Birna