Í sumarbústaðalandinu er fjölbreytt úrval lóða. Þar eru grónir hálsar með kjarri og er birki og víðir mest áberandi. Margar lóðir eru staðsettar utan í hálsum af þannig gerð. Svo eru aðrar þar sem gras er meira ríkjandi. Þeir sem vilja gróðursetja sjálfir eru oft meira hrifnir af þannig landi. Einnig eru lóðir þar sem mikið ber á klöppum því sumir vilja alls ekki mikinn gróður í kringum sig. Reynt hefur verið að koma til móts við þarfir sem flestra á þennan hátt.

Öll flóran. Finna má afar margar plöntutegundir í sumarbústaðalandinu. Það er ekki í kot vísað fyrir þá sem hafa áhuga á náttúruskoðun af þessum toga.

Á svæðinu eru einnig tjarnir. Þær eru að líkindum gamlar mógrafir sem hafa fyllst af vatni því uppsprettur eru á nokkrum stöðum.

Fuglalífið er fjölbreytt. Mófuglarnir okkar íslensku una sér vel. Lóan og spóin eiga sem dæmi þarna skjól og hreiður og þakka fyrir sig á sinn hátt með dírðin og velli. Rjúpur trítla á milli greina og einnig hefur sést til uglu, smyrils, og stöku örn hefur flogið yfir.

Berjaland er gott á þessum stað. Þar eru krækiber í þúsundavís ásamt bláberjum, hrútaberjum og stöku villt jarðarber. Ekki hafa fundist aðalbláber í sumarbústaðalandinu en nokkuð er um sveppi.

Útsýni er viðbrugðið. Þrátt fyrir að landið láti ekki mikið yfir sér og virðist ekki standa hátt þá er útsýnið dásamlegt. Fjallahringurinn er gríðarfagur. Í norðri eru Hraunsnefsöxl og drottning Borgarfjarðar, Baulan, mest áberandi. Sagan segir að uppi á Baulutindi sé tjörn og í henni óskasteinn. Sá sem nær í steininn fái allar sínar óskir uppfylltar. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að steinninn flýtur ekki upp nema einu sinni á ári, á Jónsmessunótt. Í norð-austri er það Hallarmúlinn með alla sína stalla og rétt austar, Eríksjökull og Langjökull. Hálsar og múlar uppsveitanna blasa við í suð-austri ásamt Fantófelli og í meiri fjarlægð, Skjaldbreiður, "Fanna skautar faldi háum, fjallið allra hæða val," orti Jónas Hallgrímsson um þessa formfögru dyngju. Í suðri blasir síðan Skarðsheiðin við með sínu Skessuhorni og þar suður af Hafnarfjallið. Vesturfjöllin sjást ekki, þar skyggir á Skarðsheiði hin nyðri eins og múlarnir í vestur átt voru eitt sinn nefndir.